Zaha sneri aft­ur og fór á kost­um

Crystal Palace vann ör­ugg­an 5:1 stór­sig­ur gegn West Bromwich Al­bi­on í ensku úr­vals­deild­inni í knatt­spyrnu í dag. WBA lék ein­um færri í tæp­an klukku­tíma og áttu því afar erfitt upp­drátt­ar í leikn­um.

Wilfried Zaha sneri aft­ur í lið Crystal Palace eft­ir að hafa misst af síðustu tveim­ur leikj­um vegna kór­ónu­veiru­smits og hafði end­ur­koma hans afar já­kvæð áhrif á liðið.

Strax á 8. mín­útu leiks­ins hóf hann að láta að sér kveða. Zaha komst þá í góða stöðu ut­ar­lega í teign­um og gaf fast­an bolta fyr­ir markið sem endaði með því að Dar­nell Furlong, varn­ar­maður WBA, varð fyr­ir því óláni að skora sjálfs­mark, 1:0

Á 30. mín­útu jafnaði WBA met­in. Furlong var áfjáður í að bæta upp fyr­ir mis­tök­in og komst upp að enda­mörk­um og reyndi fyr­ir­gjöf. Hún fór í varn­ar­mann en Furlong fékk bolt­ann aft­ur og lagði hann út í teig­inn á Con­or Gallag­her sem jafnaði með hnit­miðuðu skoti, 1:1.

Á 34. mín­útu átti sér svo stað af­drifa­ríkt at­vik. Þá braut Pat­rick van Aan­holt í liði Palace á Mat­heus Pereira hjá WBA, sem brást ókvæða við og sparkaði í van Aan­holt á mjög viðkvæm­an stað. Eft­ir að dóm­ar­inn skoðaði at­vikið í VAR-sjánni ákvað hann að reka Pereira út af.

1:1 var staðan í hálfleik en Palace mættu grimm­ir til leiks í síðari hálfleikn­um. Zaha kom liðinu aft­ur í for­ystu á 55. mín­útu með frá­bæru skoti, 2:1.

Fjór­um mín­út­um síðar komst Christ­an Benteke á blað þegar van Aan­holt gaf bolt­ann út í teig og náði Benteke að skalla bolt­ann milli fóta Kyle Bartley í vörn WBA og í netið. Staðan orðin 3:1.

Á 68. mín­útu skoraði Zaha svo annað mark sitt þegar bolt­inn hrökk til hans í teign­um eft­ir frá­bær­an sprett Eb­erechi Eze, 4:1

Christian Benteke batt svo enda­hnút­inn á leik­inn með öðru marki sínu þegar hann fékk send­ingu frá Nathaniel Clyne í teign­um, sneri á Semi Ajayi og skoraði með lag­legu skoti.

5:1 loka­töl­ur þar sem Palace naut þess til hins ítr­asta að fá Zaha til baka. Leik­irn­ir tveir sem hann missti af töpuðust enda báðir og náði liðið ekki að skora eitt ein­asta mark.

Mbl.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *