Vefhýsingarskilmálar

WP vefhönnun ehf (wpvefhonnun.is, wpvefverslun.is og wpvefhysing.is, einnig vísað til „við, okkur og okkar“) veitir hýsingar- og vefþjónustu fyrir einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki gegn gjaldi undir nafninu WP vefhönnun ehf. Áskrifandi (viðskiptavinur) að þjónustu þessari lýsir yfir og ábyrgist að hann sé fullra átján ára að aldri, fjár síns ráðandi og að fullu sjálfráða ef hann er einstaklingur. Ef áskrifandi er fyrirtæki eða önnur persóna að lögum ábyrgist fyrirsvarsmaður viðkomandi að hann sé til þess bær að taka á sig þær skuldbindingar sem skilmálar þessir greina. Viðkomandi lögráðamenn geta gert samning við WP vefhönnun ehf fyrir hönd ósjálfráða eða ófjárráða einstaklinga og þurfa þá að hafa samþykkt notkun hins ósjálfráða eða ófjárráða á þjónustu WP vefhönnun ehf. Lögráðamaður tekur persónulega á sig allar skyldur og ábyrgð sem leiða af þeim þjónustusamningi sem við á hverju sinni. Sama á við um greiðsluskilmálum WP vefhönnun ehf.

Áskrifandi lýsir yfir og ábyrgist að hann muni upplýsa WP vefhönnun ehf um breytingar á öllum áður uppgefnum upplýsingum eins fljótt og mögulegt er til að WP vefhönnun ehf hafi ávalt réttar, fullnægjandi og gildandi upplýsingar. Ennfremur lýsir áskrifandi því yfir og ábyrgist að allar upplýsingar sem hann hefur gefið WP vefhönnun ehf séu réttar, fullnægjandi og í gildi.

Áskrifandi fær úthlutað aðgangi að þjónustu WP vefhönnun ehf er samanstendur af notendanafni og lykilorði. Þennan aðgang má viðskiptavinur einn nota og er hann ábyrgur fyrir aðgangi sínum. Það er með öllu óheimilt að afhenda notendanafn og lykilorð sitt öðrum aðila.

Áskrifandi fær afnot netfangs og FTP aðgangs sem er bundinn þeim aðila sem skráður er fyrir aðganginum. Ber sá aðili jafnframt einn ábyrgð á því sem gert er með aðgangi hans. Áskrifandi skal sjálfur sjá um afritunartöku af þeim gögnum sem geymd eru á heimasvæði hans.

Öll misnotkun á hýsingaraðgangi eða heimasvæði t.d. birting eða fjöldadreifing ósiðlegs, ólöglegs eða ærumeiðandi efnis varðar við lög. Áskrifanda er óheimilt að vista á heimasvæði sínu efni sem brýtur í bága við íslensk lög. Vistun á torrent skrám, hvort sem um ræðir margmiðlunarefni eða hugbúnað til að sækja gögn sem varin eru höfundarrétti á vefsvæðum er stranglega bönnuð. WP vefhönnun ehf áskilur sér rétt til að ákveða hvort notkunarskilmálum þessum sé framfylgt á fullnægjandi hátt. Áskrifandi skuldbindur sig til þess að tryggja að umgengnisreglur séu hafðar að heiðri.

Uppsetning á internethugbúnaði eða stillingar í tölvu notanda eru ekki innifalin í hýsingarþjónustu og er greitt sérstaklega fyrir slíka þjónustu.

WP vefhönnun ehf áskilur sér rétt til þess að eyða gögnum viðskiptavinar á vef- og póstþjónum ef reikningar hafa ekki verið greiddir í 3 mánuði. WP vefhönnun ehf tekur enga ábyrgð á gögnum sem áskrifandi geymir á netþjónum okkar og kunna að skemmast eða tapast. Þá ábyrgist WP vefhönnun ehf ekki tjón sem stafar af bilunum í grunnkerfum þriðja aðila eða rekja má til óviðráðanlegra orsaka (e. force majeure), s.s. náttúruhamfara, stjórnsýsluákvarðanna, skemmdarverka, mannlegra mistaka eða annarra slíkra aðstæðna.

Allir reikningar eru sendir frá WP vefhönnun ehf.

Áskrifanda ber að tilkynna uppsögn á þjónustu WP vefhönnunar ehf með sannanlegum hætti þ.a.e.s. með tölvupósti frá tengslanetfangi áskrifandans á netfangið wpvefhysing@wpvefhysing.is eða wpvefhonnun@wpvefhonnun.is. Uppsögn á þjónustu skal hafa borist WP vefhönnun ehf a.m.k. 10 dögum fyrir þau mánaðarmót sem uppsögn skal taka gildi ella tekur uppsögnin gildi um næstu mánaðarmót þar á eftir.

Áskrifanda er óheimilt að trufla, skerða eða hafa áhrif á notkun annarra viðskiptavina, til dæmis með fjöldapóstsendingum og netárásum (DDoS). Óheimilt er að dreifa tölvuvírusum eða öðru sem kann að skemma hugbúnað, trufla vinnu, tölvubúnað eða samskipti annarra. Notkun sem veldur óeðlilegu álagi á netkerfi WP vefhönnunar ehf er óheimil. Það er með öllu óleyfilegt er að keyra hverskonar forrit (script) svo sem Proxy, SeedBox og önnur script sem valda álagi og niðurhali á vefhýsingum sem WP vefhönnun ehf býður uppá.

WP vefhönnun ehf áskilur sér rétt til að takmarka eða loka á þjónustu til viðskiptavinar tímabundið eða að öllu leiti verði hann fyrir ítrekuðum netárásum (DDoS). Viðskiptavinur fær í kjölfarið tölvupóst þar um. Bregðist hann ekki við mun WP vefhönnun ehf takmarka eða loka á þjónustuna. Við síendurteknum árásum verður tengingu lokað til frambúðar.

Það er með öllu óheimilt að endurselja og/eða veita aðgang að þjónustu WP vefhönnunar ehf án sérstaks samnings við okkur hvort sem gjald er tekið fyrir eða ekki. Eingöngu áskrifandi sem gert hefur endursölusamning við WP vefhönnun ehf hefur heimild til að áframselja þjónustu þess.

WP vefhönnun ehf áskilur sér rétt til að loka þjónustu um stundarsakir ef nauðsyn krefur s.s. vegna tæknibilana eða uppfærslum á netkerfi. WP vefhönnun ehf ber enga ábyrgð á tjóni áskrifanda vegna hvers konar bilana, sambandsleysis eða truflana á netkerfi WP vefhönnunar ehf og samstarfsaðila. Ef áskrifandi hefur ástæðu til að ætla að óviðkomandi aðili hafi komist yfir upplýsingar um notendanafn og/eða lykilorð hans að þjónustu WP vefhönnunar ehf ber honum skylda að tilkynna það án tafar.

WP vefhönnun ehf tekur ekki ábyrgð á röngum verðum sem kunna að vera inná vefsíðum þess. WP vefhönnun ehf áskilur sér rétt til þess að hætta við pöntun komi í ljós að varan hafi verið ranglega verðmerkt.

WP vefhönnun ehf áskilur sér rétt til að senda áskrifendum bréf og/eða tölvupóst með tilkynningum er varða þjónustu þess.

Skilmálar þessir teljast samþykktir og gagnkvæmur samningur kominn á ef annað hvort af eftirfarandi skilyrðum hefur verið uppfyllt: 1. Áskrifandi hefur samþykkt kaup á þjónustu. 2. Áskrifandi hefur hafið notkun á þjónustu. Gjaldtaka hefst frá þeim degi sem samningur þessi tekur gildi.

Áskrifandi, skilur og fellst á að þjónusta sú sem WP vefhönnun ehf veitir, er veitt eftir bestu getu starfsmanna WP vefhönnunar ehf og samstarfsaðilia á hverjum tíma, án nokkurrar ábyrgðar um gæði, áreiðanleika, hraða, villuleysi eða virkni. Áskrifandi fellst á þetta fyrirkomulag og afsalar sér öllum bótakröfum á hendur WP vefhönnun ehf og samstarfsaðilum þess sem kunna að stofnast af völdum villna, bilana, aðgengisskorts, gagnataps, minnkaðs hraða eða skorts á virkni þeirrar þjónustu sem WP vefhönnun ehf og samstarfsaðilar veita. Gildir þetta án tillits til sakar starfsmanna WP vefhönnunar ehf og samstarfsaðila.

Við tökum ekki ábyrgð á gæðum afrita, mistökum við afritun, gagnaskemmdum í afritum eða þjónustugæðum við afritun. WP vefhönnun ehf hvetur viðskiptavini eindregið til að taka eigin afrit og geyma þau utan kerfa WP vefhönnun ehf og samstarfsaðila og helst á fleirum en einum stað.

Brot á ofangreindum skilmálum getur valdið tafarlausri lokun á þjónustu.

WP vefhönnun ehf áskilur sér rétt til að endurskoða skilmála þessa án fyrirvara.

Mál sem rísa kunna vegna brota á samningi þessum eða vegna ágreinings um túlkun hans skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur ef ekki tekst að leysa með samkomulagi.

Útgáfa skilmála númer: 1.0